Um Sirrý

sjÉg man eftir mér sem lítilli stelpu í Breiðholtinu. Ég átti erfitt með að fylgjast með því sem var að gerast í kringum mig og var oft ekki með á nótunum. Tilfinningalegum þörfum mínum var ekki mætt og ég fékk fljótlega skömm á sjálfri mér og fannst ég ekki vera nógu góð. Ég fór að efast um sjálfa mig og treysta meira á aðra. Álit annara á mér skipti mig miklu máli og fljótlega fann ég fyrir því að ég gæti aldrei orðið nógu góð fyrir aðra, sama hvað ég kepptist við. Ég var aldrei viss um hvað mig langaði til að verða en prófaði sitt af hverju.

Eftir grunnskóla sigldi ég áfram stefnulaust, innantóm og átti engan tilgang. En ég prófaði ýmislegt: baka pizzur, leiðbeina í leikskóla, móttöku á snyrtistofu. Var innkaupafulltrúi, umsjónarmaður úrbóta ( gæðamál ), annaðist vörumóttöku, förðunarfræðingur, sölumaður snyrtivara svo eitthvað sé nefnt. Í öllum þessum störfum var ég með misjafnan fókus og átti það stundum til að fresta ýmsu.
Ég var engu nær um hvert ég var að stefna. Ég litaðist af þeim viðhorfum að ég þyrfti að vera best, að ég þyrfti að vera með titil til að vera meðtekin. Styrkleika mína mældi ég eftir því hvernig öðrum fannst ég standa mig. Ég gerði miklar og óraunhæfar væntingar til mín: allt sem ég gerði átti að vera fullkomið. En vegna þess að ég var aldrei nógu fullkomin hætti ég að framkvæma og lifði frekar í ótta við ófullkomnun. Ég var komin á botninn í lífi mínu og gerði aðra ábyrga fyrir því hvernig fyrir mér var komið.

Þetta var fyrir 18 árum. Ég hafði reyndar reynt að breyta mér í mörg ár án árangurs. Með þá reynslu að baki á þessum erfiðu tímamótum varð ég skelfingu lostin. Mér var bent á 12 sporin til að vinna með mig og ákvað ég að láta slag standa. Ég fékk að gefast upp fyrir sjálfri mér í 1. sporinu því líf mitt var stjórnlaust. í 2. sporinu lærði ég að treysta á mátt mér æðri. Það spor var mér mikilvægt því þar lærði ég að treysta á sjálfa mig. Í framhaldinu lærði ég að verða ábyrg og líf mitt tók stakkaskiptum. Fullkomnunaráráttan lét undan og ég fór að þora. Í þessari andlegu vakningu sem ég varð fyrir við vinnslu sporanna fór ég að eignast drauma, langanir og þrár. Einn af draumunum mínum var að láta gott af mér leiða og hjálpa öðrum. Og mottóið mitt varð að ég þráði að sigrast á brestum mínum og fyrirstöðum til að geta miðlað öðrum.
Árið 2005 hóf ég nám í ADDCA (ADD Coach Academy ) og lærði þar markþjálfun með sérhæfingu í að vinna með fólk sem glímir við hindranir varðandi fókusinn í lífi sínu. Ýmsar hindranir geta staðið í vegi fyrir Því að við náum markmiðum okkar og stundum höfum við ekkert að stefna að og þá kemur markþjálfinn inní og aðstoðar einstaklinginn að skoða hvert hann vill stefna eða hvað hindrar framgang hans. Námið umbreytti lífsýn minni algerlega. Síðar fór ég í nám í Christian Coach Institute þar lærði ég markþjálfun með kristnum áherslum. Ég lærði ennþá meira um hvað það skiptir miklu máli að þekkja styrkleika sína og og taka sér stefnu í lífinu. Árið 2010 útskrifaðist ég sem Áfengis og Vímuefnaráðgjafi úr Ráðgjafarskóla Íslands og er nú komin með alþjóðlega vottun sem ráðgjafi ICADC. Ég er fyrrum formaður FÍFV, Félag Íslenskra Áfengis og Vímuefnaráðgjafa. Ég bætti um betur í mars 2015 þegar ég hóf nám í USA þar sem ég lærði addiction and mental health nutrion therapy - coaching. Eins og flestir vita sem þekkja mig þá trúi ég því að mataræði og næring hafi mikið að segja með líðan okkar og skap. 'Eg skil betur að fæðan okkar getur stýrt því líka hvernig okkur gengur að halda okkur frá því að hrasa í batanum okkar - ef við erum að glíma við fíknir. 

í dag á ég líf sem ég hefði aldei trúað að ég gæti eignast. Frá því að lifa stjórnlausu lífi í að lifa í fókus. Ég veit tilgang minn með lífi mínu, ég þekki styrkleika mína í dag og vel mér verkefni sem ég hef áhuga á. Sjálfsmynd mín er mjög góð og ég byggi hana ekki á því hvað aðrir segja um mig. Ég er 100 % viss um mig. Ég er endalaust þakklát fyrir það og lifi lífi mínu lifandi.
Ég trúi á lausnir og ekkert vandamál sé það slæmt að ekki sé hægt að bæta það.

Þú þarft aðeins eitt: Löngun til að breytast.
Gangi þér vel.

Skráðu þig á póstlista íFókus