Má öskra á nemendur?

8401852637 b20a4ce4b4Það er ekki langt síðan að umræða um einelti á vinnustöðum hófst hér á landi. Einelti er ofbeldi og við erum orðin meðvitaðri um hverjar afleiðingar það hefur á starfsfólk og starfsumhverfi.

Við sem fullorðnir einstaklingar myndum ekki sætta okkur við starfsumhverfi þar sem talað er niður til okkar, öskrað á okkur eða tekið í okkur. Engu að síður gerist þetta í skólaumhverfi barna okkar. Hverjar sem ástæðurnar eru þá er ekki undir neinum kringumstæðum hægt að réttlæta vitsmunalegt, tilfinningalegt eða líkamlegt ofbeldi - ég endurtek ekki undir neinum kringumstæðum.

Mér finnst þörf á að auka umræðuna um ofbeldi sem þrífst í starfsumhverfi barnanna okkar. Ofbeldi af hendi kennara og annars starfsfólks í skólum.

Hlutverk skólans á að vera að stuðla að því að gera nemendur að betri og hæfari einstaklingum. Gott og uppbyggilegt námsumhverfi sem hefur trú á getu og hæfni nemandans er mikilvægt og virkar hvetjandi og styrkjandi. Í Grunnskólalögum, kafla 3 grein12 segir „Starfsfólk grunnskóla skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki"

Kennari sagði eitt sinn við nemanda „af hverju hagar þú þér eins og þú sért þroskaheft? Móðir barnsins hefur reglulega staðið barn sitt að því að segja upphátt við sjálfa sig: „Ég er hálfviti". Öll orð hafa afleiðingar og þessi orð kennarans gætu vel hafa tekið sér bólfestu í sjálfsmati stúlkunnar og þar með haft áhrif á það hver hún telur sig vera.

Ekki eru allir sammála um það hvernig ofbeldi er skilgreint og þá sérstaklega andlegt ofbeldi. Mín skilgreining á andlegu ofbeldi er þessi:

Framkoma (með eða án orða) sem hefur það að markmiði (meðvitað eða ómeðvitað), að valda andlegum sársauka eða vanlíðan eða er skynjuð þannig af þeim sem fyrir henni verður.

Hefur einhver sagt við þig að þú skiljir ekki neitt og að það sé eitthvað að hjá þér?

Hefur verið sagt við þig að þú sért of feit/ur, of mjó/r, heimsk/ur, ljót/ur, vond/ur, óæf/ur og/eða einskis virði?

Hefur þú verið uppnefnd/ur og þér bölvað?

Er öskrað á þig?

Er þér sagt að þú sért geðveikur eða klikkaður?

Hefur þér verið sagt að fara til fjandans eða að láta þig hverfa?

Eru skoðanir þínar, smekkur eða gjörðir gagnrýndar?

Ertu hunsuð/aður, ekki yrt á þig, þér ekki svarað og látið eins og þú sért ekki á staðnum.

Er þér sagt hvað þú sért að hugsa og hvernig þér líður þótt þér hvorki líði þannig né sért að hugsa það?

Hefur þér verið sagt að tilfinningar þínar séu heimskulegar, ómerkilegar eða óviðeigandi?

Færðu skilaboð um að það geti e-h hræðilegt komið fyrir ef þú tjáir skoðanir , þarfir, eða tilfinningar þínar?

Er þér sagt hvernig þér á að líða?

Ert þú kölluð/aður til ábyrgðará tilfinningum, hugsunum eða gjörðum annara?

Er gert lítið úr verkum þínum?

Er þér sagt að þú sért ekki í lagi eins og þú ert og að þú eigir að vera öðruvísi?

Svörin við þessum spurningum geta gefið til kynna hvort þú búir við ofbeldi.

Ég vil ljúka þessum pistli mínu með þessum orðum, en þau er að finna á facebook síðu sem heitir Hjartamál og hugdraumar:

„ Þegar barn er beitt hörku og niðurlægingu af foreldrum, vinum eða öðrum hættir það ekki að elska viðkomandi. ÞAÐ HÆTTIR AÐ ELSKA SJÁLFT SIG"!

Höfum það í huga!

Skráðu þig á póstlista íFókus