ADHD - skortur á hvata til framkvæmda?

ADHD - Skortur á hvata til framkvæmda?

Hæfileikar og styrkleikar gegna viðamiklu hlutverki í velgengni þeirra sem glíma við ADHD einkenni. Þegar einstaklingur með lélega einbeitningu er að fást við verkefni sem honum finnast skemmtileg á hann auðvelt með að halda einbeitningu. Þegar honum leiðist verkefnið hverfur einbeitningin og erfitt reynist að ljúka því. Það er mikilvægt fyrir alla hvort sem þeir glíma við ADHD eða ekki að finna út hvar áhugasviðið liggur og taka stefnuna á að virkja áhugamálin. Þannig getur einstaklingurinn stuðlað að velgengni í lífinu. Það er mikill lækningarmáttur fólgin í því að finna hæfileikana því þeir gefa tilgang og markmið. Án tilgangs og markmiða erum við stefnulaus, áttavillt og tökum oft hvatvísar ákvarðanir.

Sif Vígþórsdóttir skólastjóri Norðlingaskóla komst svo vel að orði þegar hún sagðist vera á móti þessum greiningum og þeim skamstöfunum sem notaðar eru á fólk.. Því ekki þá að kalla ADHD í staðinn GOS: Geislandi ofvirkur snillingur.

Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að ADHD sé í raun skortur á hvata til framkvæmdar. Hér má lesa nánar um þessa rannsókn:http://news.health.com/2009/09/09/motivation-may-be-root-adhd/.

Í bókini “Að morgni var ég alltaf ljón” eftir Arnhild Lauveng segir hún frá því hvernig hún veiktist af geðklofa 17 ára gömul. Næstu 10 árin lá hún samanlagt 8 ár i á geðdeild, mjög veik. Draumur hennar hafði verið að verða sálfræðingur en sérfræðingar voru fljótir að eyða þeim draumi. Þeir töldu hana það veika að hún myndi aldei ná sér, hvað þá að hún gæti  stundað nám. Hún var sett í iðjuþjálfun þar sem hún átti  að móta bleikar kúlur.  Henni fórst það illa úr hendi. Sérfræðingarnir mátu það svo að þar sem hún hefði ekki getu til að sinna þessu einfalda verkefni gæti hún ekki farið í skóla. Hún segir í bók sinni að þarna hafi menn gert mistök, þeim láðist að leita eftir löngunum hennar. Arnhild hafði enga löngun til og sá engan tilgang í að vinna með bleikar frauðkúlur. Síðar var áherslum breytt í bæjarfélagi  hennar og varð endurhæfing geðsjúkra meira starfsendurhæfingarmiðuð. Þetta varð til þess að Arnhild byrjaði í skóla. Í dag er hún útskrifuð sem sálfræðingur, laus við geðklofaeinkenni.

Nýlega var viðtal við formann geðlæknafélagsins í fjölmiðli. Kom þar fram að notkun lyfja við ADHD í Svíþjóð væri þriðjungi minni en  á Íslandi. Sagði formaðurinn að flestir þeirra sem notuðu lyf hér á landi væru drengir á aldrinum 5-20 ára. Taldi hann að brýnt væri að bæta þjónustu í skólakerfinu og tryggja það að þeir nemendur sem eru með athyglis- eða hegðunartruflanir fái alhliða þjónustu í skólanum, bæði hjá kennurum og heilbrigðiskerfinu.

Einn mikilvægasti þáttur menntakerfisins ætti að vera uppgötvun á hæfileikum nemenda. Norðlingaskóli gerir áhugasviðssamninga við nemendur sína þar sem nemendur ástunda áhugasvið sín vikulega, tvæt skólastundir í viku. Sif skólastjóri telur mikilvægara að útskrifa nemendur sína með góða sjálfsmynd en háar einkunnir.

ADD Coach Academy( ADDCA ) er fremsti ADHD markþjálfunarskóli í heimi.ADDCA  grundvallar nálgun sína á  ADHD einstaklingum þannig að hver og einn einstaklingur hafi guðdómlega hæfileika. Rík áhersla er lögð á að til að ná árangri með ADHD þurfi einstaklingar að finna hæfileika sína. Barbara Luther kennari í ADDCA og ég áttum fyrir nokkrum árum samtal um hversu miklu þetta skiptir í lífi þeirra sem glíma við ADHD. Okkar niðurstaða var að hæfileikarnir vegi  90%. Ég hef unnið með fjölda einstaklinga sem hafa átt í erfiðleikum með einbeitningu og úthald þar til þeir fóru að hlusta eftir hæfileikum sínum. Þetta getur reynst fólki erfitt því það útheimtir að viðkomandi endurskoði hugmyndir sínar um það hvað það er að ná árangri og hvað skiptir máli. Lykilnn er að þora að sleppa tökunum til að geta fundið sjálfan sig.

Niðurstaða mín er sú að uppgötvun hæfileika er gríðarlega mikilvæg fyrir alla hvort sem þeir eru með ADHD eða ekki. Einblínum ekki á greiningar, heldur skoðum manneskjuna. Hver ertu? Hvaða hæfileika hefur þú fengið í vöggugjöf? Með breyttri sýn á einstaklinga getum við dregið úr greiningum og farið að horfa á einstaklinginn sem heilan og hæfan.

 

Skráðu þig á póstlista íFókus